Lauga
Guðlaug Birna Björnsdóttir
Ég er fagurkeri sem heillast af öllu því sem gerir lífið fallegt, notalegt og skemmtilegt.
Mig langar að hafa áhrif á þá sem skoða verkin mín og eiga þátt í að gera líf þeirra og umhverfi fallegt, notalegt og skemmtilegt.
Mig langar að skapa hughrif og vekja upp tilfinningar með verkum mínum. Skapa kraftmikil verk sem þú getur tengt við. Að þú getir týnt þér í verkinu og velt fyrir þér; Hvað er handan sjóndeildarhringsins? Hvað býr í þokunni? Hvað er í huga persónunnar á myndinni? Að þú getir upplifað notalega kyrrð og ró, upplífgandi kraft og orku eða aðrar tilfinningar sem koma upp.
Ég er sjálflærð og vinn mest með akrýlmálningu í dag. Ég ætlaði alltaf í listnám en óöryggi þvældist fyrir mér. Ég endaði á hagfræðabraut í framhaldsskóla og tölvunarfræði í háskóla og hætti að sinna listinni. Nám og starfsferillinn hefur nýst og reynst mér vel en listin hefur tosað meira og meira í mig í seinni tíð. Eldra barnið mitt er mjög skapandi og að fylgjast með því þróast í sinni listsköpun gegnum árin hefur vakið mig til lífsins. Það varð mér fyrirmynd og hvatning til að taka upp penslana fyrir alvöru.
Ég er uppfull af hugmyndum, svo mikið reyndar að stundum flæðir yfir. Ég hlakka svo mikið til að framkvæma allar þessar ótal hugmyndir og þróast sem listamaður um komandi ár.
Merkið
Ég er svolítið ferhyrnd og innan í kassa en einnig í mjúku flæði sem brýst út fyrir kassann. Kassann sem einnig rammar inn orðið "auga" en ég tel mig hafa sæmilega gott auga (sem er auðvitað í sífelldri þjálfun).
Ég er ekki faglærð í grafík og því er merkið ekki mælt eða útpælt á þann hátt. Merkið er gert út frá auganu og út frá tilfinningu - í flæði. Merkingin bakvið það kom til mín eftir á, eins og henni var ætlað að koma til mín. Í flæði.
Það er ákveðin ófullkomnun í því, falleg ófullkomnun enda er ekkert í þessum heimi fullkomið þó það geti verið einstaklega fallegt. Sem mér finnst merkið vera, einfalt, látlaust, fallegt og klassískt. Það er ákveðin ró yfir því sem einkennir einnig sjálfa mig.
Kassinn gefur möguleika á að leika sér innan hans og utan. Skipta um liti, bæta við formum, litum eða myndum innan í hann, utan við hann eða bæði. Það getur fært merkið úr rónni sem það tilheyrir yfir í meiri leik, skemmtun og fjölbreytileika sem brýst út í mér.
Kassinn myndar hálfgerðan ramma og gefur jafnvægi þar sem ég býst við að nota merkið mikið í "square" formi (sbr samfélagsmiðlar) en er ekki það stórt að það takmarkist við "square" notkun þegar það hentar ekki.